Innlent

Samiðn vonsvikin með aðgerðaleysi stjórnvalda

Finnbjörn Hermannsson er formaður Samiðnar.
Finnbjörn Hermannsson er formaður Samiðnar.

Miðstjórn Samiðnar lýsir yfir miklum vonbrigðum með þróun efnahagsmála og undrast aðgerðarleysi íslenskra stjórnvalda.

Í ályktun á fundi miðstjórnar segir að bregðast þurfi við óðaverðbólgu og háum vöxtum með átaki ríkisstjórnar, stjórnarandstöðu, sveitarstjórna og aðila vinnumarkaðarins með það að markmiði að koma á stöðugleika í íslensku efnahagslífi. Samiðn leggur áherslu á að verkalýðshreyfingin hafi frumkvæði og forystu í þeirri vinnu. Ekki verði séð að hægt sé að skapa stöðugleika í íslensku efnahagslífi nema til komi stöðugleiki í gengismálum og því verði að taka stöðu krónunnar til umræðu.

Enn fremur segir miðstjórnin að stjórnvöld þurfi nú þegar að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir atvinnuleysi á næstu misserum með því að flýta aðgerðum á vegum hins opinbera. Þá verði að tryggja stöðu Íbúðalánasjóðs og hafnar miðstjórnin því alfarið að jafn mikilvægur þáttur í framfærslukostnaði almennings eins og fjármögnun húsnæðis verði alfarið sett í hendur á markaðsráðandi öflum.

Enn fremur segir í ályktuninni að miðstjórnin telji mikilvægt að framhald verði á uppbyggingu nýrra orkuvera til að skapa áhugaverðar aðstæður fyrir áframhaldandi atvinnuuppbyggingu. Jafnframt verði þess gætt að framkvæmdatími sé með þeim hætti að framkvæmdirnar valdi ekki óstöðugleika í íslensku efnahagslífi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×