Innlent

Yfir 90 prósent segjast flokka sorp til endurvinnslu

Hér getur að líta magn pappa, pappír og plasti sem hver meðalÍslendingur notar á ári hverju.
Hér getur að líta magn pappa, pappír og plasti sem hver meðalÍslendingur notar á ári hverju.

Níu af hverjum tíu Íslendingum segjast flokka sorp til endursvinnslu samkvæmt nýrri könnun sem Capacent gerði fyrir Úrvinnslusjóð. Hún var kynnt í dag um leið og hleypt var af stokkunum endurvinnsluviku þar sem kynnt verður mikilvægi endurvinnsu fyrir íslenskt samfélag.

Í tilkynningu Úrvinnslusjóðs segir að sérstök áhersla verði lögð á kynningu fyrir unglinga þar sem kannanir benda til að fólk á aldrinum 16-20 ára standi sig einna verst í flokkun sorps. Til dæmis segjast ríflega 15 prósent unglinga á aldrinum 16-20 ára aldrei flokka sorp en sambærileg tala fyrir alla aldurshópa yfir 16 ára aldri er tíu prósent. Þegar hins vegar horft er til allra þátttakenda í könnunninni segjast 19 prósent aðspurðra alltaf flokka sorp til endurvinnslu, og nærri 40 prósent of.

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra og Guðlaugur Sverrisson, verkefnisstjóri hjá Úrvinnslusjóði, þegar vikunni var hleypt af stokkunum í MH í dag.

„Á meðan á endurvinnsluvikunni stendur verður lögð sérstök áhersla á að kynna úrræði til endurvinnslu í framhaldsskólum landsins. Sérstakt kennsluefni fyrir framhaldsskóla hefur verið unnið í tilefni endurvinnsluvikunnar. Vefsíða Úrvinnslusjóðs hefur verið endurbætt með það að markmiði að upplýsa betur um þau úrræði sem standa til boða í hverjum landshluta fyrir sig. Nokkur fyrirtæki í endurvinnslugeiranum hafa opið hús fyrir framhaldsskóla á síðasta degi vikunnar, föstudaginn 19. september," segir í tilkynningu Úrvinnslusjóðs.

Þetta er í fyrsta sinn sem endurvinnsluvika er haldin hér á landi en hún er haldin að evrópskri fyrirmynd. Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra setti endurvinnsluvikuna í Menntaskólanum við Hamrahlíð í dag.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×