Innlent

Vill stýra fjárveitingum til lögreglustjóra

Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri
Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri MYND/E.Ól

Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri vill fækka lögreglustjóraembættum enn frekar og færa fjárveitingar til lögreglumála til Ríkislögreglustjóra. Þetta kemur fram í nýbirtri ársskýrslu Ríkislögreglustjóra fyrir síðasta ár.

Í formála Haraldar segir að hann hafi viðrað hugmyndir um að lögreglustjóraembættum verði fækkað enn frekar, en þeim var síðast fækkað í fyrra. Enn fremur að lögreglustjórar hafi nánast eingöngu með höndum lögregluverkefni en ekki verkefni sýslumanna og tollstjóra og að lögreglan verði ein heild undir stjórn ríkislögreglustjóra.

„Fjárveitingar til lögreglumála færist til embættis ríkislögreglustjóra sem ráðstafar þeim til lögreglustjóra og löggæsluverkefna eftir áherslum á hverjum tíma. Með þessu fyrirkomulagi verði fjárveitingum og starfskröftum best varið til árangurs," segir Haraldur. Vísar hann til fyrirmyndar á Írlandi. „Þá hef ég reifað þá skoðun að lögreglustjórar fari ekki með ákæruvald," segir ríkislögreglustjóri enn fremur.

Fram kemur í ársskýrslunni að rekstrarkostnaður embættis Ríkislögreglustjóra hafi aukist um rúm 22 prósent á milli áranna 2006 og 2007. Skýringin er meðal annars fjölgun sérsveitarmanna, breyting tölvurekstrar lögreglunnar og breyting á útgáfu ökuskírteina og stöðu tengslafulltrúa embættisins hjá Europol.

Þá hefur rekstrarkostnaður embættisins nærri tvöfaldast á fimm ára tímabili. Árið 2002 nam rekstrarkostnaðurinn tæpum 700 milljónum króna en í fyrra var hann orðinn 1,3 milljarðar króna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×