Erlent

E-vítamín lengir líf alzheimer´s-sjúklinga

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Vítamín.
Vítamín.

E-vítamín getur lengt lífdaga alzheimer´s-sjúklinga samkvæmt rannsókn sem kynnt var á þingi taugasérfræðinga í Chicago í fyrradag.

Leiddi rannsóknin í ljós að sjúklingar sem tóku e-vítamín með eða án annarra lyfja eru 26% líklegri til að eiga lengri lífdaga en þeir sjúklingar sem ekki tóku það. Notkun vítamínsins samhliða þeim lyfjum sem gefin eru við alzheimer´s reyndist gefa betri raun en notkun efnanna hvors í sínu lagi. Áður hafði verið sýnt fram á þann eiginleika e-vítamíns að hægja á þróun alzheimer´s-sjúkdómsins en í nýju rannsókninni var fylgst með 847 sjúklingum í fimm ár.

Tveir þriðju hlutar hópsins tóku inn 1.000 einingar af e-vítamíni tvisvar sinnum á dag ásamt lyfi sem gefið er við alzheimer´s. Tæp 10% hópsins tóku aðeins inn e-vítamín en 15% hans tóku aðeins inn lyfið og lifði sá hluti skemur. Talsmaður rannsóknarinnar tók þó fram að fara þyrfti mun ítarlegar ofan í saumana á virkni e-vítamíns í þessu samhengi.

Vefsíða Bloomberg greindi frá. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×