Innlent

Þingmenn flognir til fundar á Vestfjörðum

Fundurinn verður haldinn á Patreksfirði.
Fundurinn verður haldinn á Patreksfirði.

Þingmenn Norðvestur kjördæmis ætla að hitta sveitarstjórnarmenn í Vesturbyggð á fundi í dag. Rætt verður um málefni svæðisins en búast má við því að áætlanir um olíuhreinsunarstöð verði ofarlega á baugi.

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins er einn þeirra þingmanna sem sækja fundinn. „Það er nú ekki boðað til þessa fundar vegna umræðunnar síðustu daga um olíuhreinsunarstöð en ég er viss um að það verður rætt," segir Guðjón Arnar. „Kannski búa sveitarstjórnarmennirnir yfir meiri upplýsingum um málið."

Guðjón segir fjölmörgum spurningum enn ósvarað í því máli en í fréttaskýringarþættinum Kompási á þriðjudag var farið yfir málið og reynt að varpa ljósi á hverjir standi að framkvæmdinni. „Það kom ekkert á óvart í þessum þætti. Þetta voru nákvæmlega sömu svör og ég hef áður fengið frá Ólafi Egilssyni um þetta mál," segir Guðjón en Ólafur er einn aðstandenda verkefnisins.

Guðjón Arnar Kristjánsson er einn þeirra þingmanna sem mæta mun á fundinn.

Að sögn Guðjóns er ekki hægt að taka afstöðu til málsins fyrr en öll spil eru komin upp á borðið. „Þess vegna hefur maður verið að gera kröfu til að fá þessar upplýsingar."

Ragnar Jörundsson, sveitarstjóri Vesturbyggðar, segist einnig gera ráð fyrir að málið verði rætt á fundinum. „Það verða mörg mál til umræðu á fundinum enda af nógu að taka," segir Ragnar og nefnir atvinnu-, samgöngu- og menntamál í því sambandi.

„En við komum nú kannski eitthvað inn á málefni olíuhreinsunarstöðvar en það mál er annars í góðum farvegi." Ragnar segist furða sig á umræðunni og segir að um sé að ræða einhverja Rússagrýlu, en rússneskir aðilar eru sagðir standa á bak við stöðina. „Spurðu Össur Skarphéðinsson um hverjir munu standa að olíuleit á Drekasvæðinu svo dæmi sé tekið. Þú færð engin svör um það enda er um viðskiptaleyndarmál að ræða," segir Ragnar og bendir á að málið hafi aðeins verið í tæpt ár í undirbúningi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×