Innlent

Ráðgjafarstofa vill almenna neysluviðmiðun

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Fullar hendur fjár. Þurfa Íslendingar neysluviðmiðun?
Fullar hendur fjár. Þurfa Íslendingar neysluviðmiðun?

Mikilvægt er að Íslandi verði sett almenn neysluviðmiðun. Þetta kemur fram í ársskýrslu Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna sem kynnt var á morgunverðarfundi með samstarfsaðilum stofnunarinnar.

Stofan telur þetta nauðsynlegt til að tryggja að lágmarksframfærsla fjölskyldna sé tryggð, m.a. við úrvinnslu greiðsluerfiðleikamála. Skýrslu um slíka viðmiðun var skilað til viðskiptaráðherra haustið 2006 að sögn ráðgjafarstofunnar.

Á síðasta ári töldu 16% umsækjenda um ráðgjöf hjá stofunni vankunnáttu í fjármálum vera undirrót erfiðleika sinna. Ráðgjafarstofa vill efla almenna fjármálafræðslu og telur rétt að skólakerfið taki slíka fræðslu inn í skyldubundið nám. „Það er mikil skerðing á lífsgæðum að eiga í greiðsluerfiðleikum og mikilvægt að efla fræðsluna til að sem fæstir lendi í þeim vanda," segir í skýrslunni.

Gera þarf sparnað eftirsóknarverðan

Enn fremur kemur fram að sparnaður sé mikilvægur til að forða einstaklingum frá greiðsluerfiðleikum og þurfi stjórnvöld að grípa til aðgerða til að gera hann eftirsóknarverðan. Lítil hefð sé fyrir sparnaði á Íslandi og því þurfi að breyta. Tekið er fram að fæstir sem til stofunnar leita eigi varasjóð til að leita í þegar í harðbakkann slær. Fjallað er um drátt skattakrafna af launum en heimild er til að halda allt að 75% launatekna eftir skuldi viðkomandi tekjuskatt. Ráðgjafarstofa telur mikilvægt að skattyfirvöldum verði heimilað að semja um þessar skuldir til þess að tryggja lágmarksframfærslu og sýn fólks út úr vandanum.

Húsaleigubætur þurfi einnig að hækka til að fylgja leigumarkaðnum eftir: „Rúmlega helmingur viðskiptavina Ráðgjafarstofu eru í leiguhúsnæði. Leigumarkaðurinn á Íslandi er frekar takmarkaður og hefur leiguverð hækkað verulega undanfarin ár vegna hækkunar fasteignaverðs. Fjárhæðir húsaleigubóta hafa ekki fylgt þessari þróun. Þetta atriði skiptir miklu máli fyrir einstaklinga í greiðsluerfiðleikum sem eru á leigumarkaðnum," segir í skýrslunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×