Íslenski boltinn

HK gat ekki staðfest ásakirnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr leik með HK í sumar.
Úr leik með HK í sumar. Mynd/Vilhelm

Samkvæmt yfirlýsingu sem birtist á heimasíðu HK í dag var ekki hægt að staðfesta þær ásakanir um að leikmaður félagsins hafi reynt að hagræða úrslitum leiks HK og Grindavíkur í sumar.

Eins og áður hefur komið fram var knattspyrnuyfirvöldum hér á landi umsvifalaust gert viðvart um meinta tilraun hins ónefnda leikmanns HK að hagræða úrslitum leiksins.

Yfirlýsingu stjórnar og meistaraflokksráðs knattspyrnudeildar HK má lesa hér að neðan:

„Vegna frétta af rannsókn efnahagsbrotadeildar á grun um að einn erlendra leikmanna HK hafi 2 dögum fyrir heimaleik HK gegn Grindavík leitað til leikmanns Grindavíkur með það í huga að hagræða úrslitum leiksins vill stjórn knattspyrnudeildar koma eftirfarandi á framfæri:

KSÍ hafði samband við stjórn og meistarflokksráð knattspyrnudeildar út af umræddu máli, eins og fram hefur komið í yfirlýsingu KSÍ. Í framhaldinu var strax kannað innan HK hvað hæft væri í þessum ásökunum.

Sú athugun leiddi hinsvegar ekki neitt fram sem staðfest gæti þessar þungu ásakanir og því ljóst að stjórn og meistarflokksráð gætu ekki aðhafst neitt frekar.

KSÍ var tilkynnt þetta og jafnframt kynnt það mat HK að í ljósi þess hversu alvarlegar þessar ásakanir væru þætti eðlilegt og nauðsynlegt að lögreglurannsókn færi fram.

Stjórn og meistarflokksráð knattspyrnudeildar HK hafa leitast við að aðstoða við að upplýsa þetta mál, að svo miklu leyti sem unnt hefur verið. Niðurstaða lögreglurannsóknar leiddi aftur á móti ekki neitt saknæmt í ljós og því ekki heldur neitt tilefni til ákæru á hendur leikmanni HK.

Þrátt fyrir það er mjög leitt að mál af þessu tagi skuli yfirhöfuð hafa komið upp innan knattspyrnunnar á Íslandi, það bera að harma og við vonum að slíkt eigi aldrei eftir að endurtaka sig."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×