Innlent

Svifryk fór tvisvar yfir heilsuverndarmörk í morgun

Umferð í höfuðborginni.
Umferð í höfuðborginni. MYND/Vilhelm

Svifryksmengun í Reykjavík fór tvisvar yfir heilsuverndarmörk í morgun. Svifryk fór fyrst yfir 80 míkrógrömm á rúmmetra milli hálf níu og níu í morgun. Milli tíu og hálf ellefu í morgun mældist loftmengunin svo 186 míkrógrömm á rúmmetra við Grensásstöð. Viðmiðunarmörk svifryks eru 50 míkrógrömm á rúmmetra á sólarhring.

Könnun sem gerð var í Reykjavík sýnir að þrjátíu prósent ferða í borginni eru einn kílómetri eða styttri og meðallengd ferða er 3,2 kílómetrar. Jafnframt eru 88 prósent ferða í Reykjavík með einkabílum. Helstu ráð til að draga úr svifryksmengun felast í því að fækka ferðum á bifreiðum, nota strætó og hjóla eða ganga á áfangastað. Eins er til bóta að draga úr hraða bifreiða og nota ekki nagladekk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×