Innlent

Fjölgun hjólhýsa og stærri bílafloti hér á landi eru merki um velmegun

Stærri bílafloti, fjölgun hjólhýsa og tjaldvagna og betri vegir eru allt merki um aukna velmegun í íslensku samfélagi segir prófessor í félagsfræði. Lögreglan í Reykjavík segir umferðarteppuna á þjóðveginum í gær sjaldan hafa verið eins mikla. Stóraukinn fjöldi hjólhýsa og tjaldvagna á vegunum sé meginástæðan.



Mikil umferðarteppa myndaðist á Suðurlands- og Vesturlandsvegi í átt til höfuðborgarsvæðinsins í gærkvöld. Um tíma var samfelld bílalest frá Reykjavík upp að Grundartanga. Þá náði bílalestin á Suðurlandsvegi alveg upp á Hellsheiði og voru ökumenn allt að klukkustund þaðan til Reykjavíkur.



Umferðarteppan hefur sjaldan verið eins mikil að sögn lögreglu þó ekki hafi verið um hefðbundna ferðahelgi að ræða. Lögreglan segir þriðja eða fjórða hvern bíl hafa verið með hjólhýsi og tjaldvagna í eftirdragi og það hafi valdið umferðarteppunni. Tölur um skráningar hjólhýsa, tjaldvagna og fellihýsa hjá umferðarstofu sýna að þeim hefur fjölgað umtalsvert síðustu ár. Árið 2002 voru rúmlega 8500 hjólhýsi, tjaldvagnar og fellihýsi á skrá hjá umferðarstofu. Árið 2004 voru tæp tíu þúsund á skrá og árið 2006 rúmlega 12500.



Helgi Gunnlaugsson prófessor í félagsfræði segir velmegunina í samfélaginu koma alls staðar fram. Aukin hjólhýsa og tjaldvagnaeign séu skýr dæmi um hvað landinn hafi það gott.

Þá hefur Sumarbústöðum fjölgað um ríflega helming frá árinu 1994. En þá voru tæplega 5000 skráðir hjá fasteignamati ríkisins en árið 2006 voru þeir rúmlega 10.000. Bílafloti landsmanna hefur einnig stækkað undanfarin ár og er algengt að tveir eða þrír bílar séu á hverju fjölskyldu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×