Lífið

Vill hert götueftirlit í miðborginni

Jójó heldur baráttutónleika á Hressó á morgun þar sem margir þekktir listamenn koma fram.
Jójó heldur baráttutónleika á Hressó á morgun þar sem margir þekktir listamenn koma fram. MYND/Vilhelm

„Ég er að senda vinaleg boð til borgaryfirvalda um betra götueftirlit til handa komandi æsku," segir götuspilarinn Jójó sem stendur fyrir baráttutónleikum á Kaffi Hressó á morgun.

Jójó hefur vakið mikla athygli vegfarenda í höfuðborginni fyrir söng sinn og gítarleik. Hann þekkir því borgina inn og út og vill sjá breytingar. „Það hefur lengi verið að þróast leiðinda viðhorf til höfuðborgarinnar sem þó býr í hjarta hvers manns." Hann segir að það sé mikið til komið vegna þeirra tilhæfulausu líkamsárása sem hafa átt sér stað upp á síðkastið og því sé mikilvægt að auka götueftirlit.

Jójó segir einnig að það sé ekki að ástæðulausu að það séu verðir í verslanamiðstöðum svo sem Kringlunni og Smáralind sem hendi fólki út. „Það er óheilbrigt fyrir æskuna að sjá fólk í annarlegu ástandi sitjandi á bekkjum eða liggjandi í ælu sinni í miðborginni. „Við þurfum að halda þessu frá æskunni."

 

Hann vill þó ekki meina að það eigi að halda rónunum frá miðborginni með valdi heldur segir hann að óformlegt spjall við ógæfumenn borgarinnar hafi sannfært hann um mikilvægi þess að fjölga plássum í afvötnun og í áfangahúsum sem hafa reynst vel í Bandaríkjunum.

Margir þekktir listamenn koma fram á tónleikunum. Meðal þeirra eru Egill Ólafsson, Gummi Jóns úr Sálinni hans Jóns míns, Pálmi Sigurhjartar og Sigurður Sigurðsson úr hljómsveitinni Kentár auk leynigesta.

„Við erum með leynigest sem er fyrirliðinn í Jungle Böm tónlistarstefnunni, nýrri línu í tónlist. Þetta er samt svona gömul stefna í nýjum nærbuxum," segir Jójó dulur í bragði og vill ekkert segja um það meir.

Hrafn Jökulsson er kynnir tónleikanna og Egill Helgason heldur ræðu í hálfleik.

Tónleikarnir verða að sjálfsögðu utandyra, í garðinum á Kaffi Hressó á milli kl. 15 og 17 á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.