Innlent

RKÍ veitir þrjár milljónir vegna flóða í Mósambík

Rauði kross Íslands veitti í dag 3 milljónir króna til neyðarbeiðni Alþjóða Rauða krossins vegna gífurlegra flóða í Mósambík.

Gríðarlegar rigningar undanfarnar vikur hafa orðið til þess að ár hafa flætt yfir bakka sína og nú í morgun gekk fellibylurinn Flavio á land. Mikið vatnsveður fylgir fellibylum og hætta er því á enn meiri flóðum. Að minnsta kosti 29 manns hafa látist í flóðunum og 120 þúsund manns hafa verið flutt frá heimilum sínum.

Flóðin hafa þegar eyðilagt þúsundir húsa, yfir 100 skóla, fjórar heilsugæslustöðvar, marga vegi, brýr og 15 þúsund hektara af ræktarlandi. Hætta er á að kóleru- og malaríusýkingar aukist og því nauðsynlegt að alþjóðasamfélagið bregðist skjótt við að sögn Rauða krossins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×