Innlent

Klámráðstefnugestir gætu krafist skaðabóta

Samtök ferðaþjónustunnar segja hættu á að gestir klámráðstefnu, sem halda átti hér á landi en var vísað frá, höfði skaðabótamál. Það sé alvarlegt mál að vísa frá hópum sem engin lög hafi brotið.

Í alyktun frá Samtökum ferðaþjónustunnar vegna Snowgathering-samkomunnar sem halda átti hér á landi segir að þrátt fyrir óbeit sem fólk kunni að hafa á klámiðnaði og annarri starfsemi sem fólk stundar löglega í heimalandi sínu en er bönnuð á Íslandi. Það sé vandséð hvernig ferðaþjónustufyrirtæki geti meinað því fólki að koma í skemmtiferð til Íslands, líkt og raunin hefur orðið, þar sem hótel Saga vísaði frá þeim gestum sem höfðu bókað sig á hótelið í tengslum við samkomuna.

Bent er á að um 400 þúsund ferðamenn komi árlega til Íslands og þeir séu ekki yfirheyrðir um störf sín heima við.

Frávísun gesta á Snowgathering-samkomuna sé alvarlegt mál sem geti leitt til skaðabótakröfu, enda um mikil viðskipti að ræða fyrir mörg fyrirtæki hér á landi.

Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, sagðist í samtali við fréttastofu.

ekki vita hver réttastaða þessa hóps sé, né fjárhagslegur skaði. Samtökin hafi áhyggjur af því fordæmi sem nú sé sett. Sárasaklausum farþegum sem vísað er frá gætu setið uppi með flugmiða sem ekki fáist endurgreiddir. Fólk gæti verið búið að panta skoða-, skemmti- og veitingastaðaferðir sem ekkert verður af og þau fyrirtæki sitji einnig uppi með skaða.

Pakkinn, með hóteli og flugferðum, fyrir gesti Snowgathering-samkomunnar, átti að kosta 1550 dollara fyrir manninn. Því má ætla að tapaðar tekjur af þeim 150 gestum sem sagðir voru ætla að sækja ráðstefnuna sé ekki undir 15 milljónum króna. Þá er ótalin önnur eyðsla fólksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×