Íslenski boltinn

Gagnrýnin hér á landi er dropi í hafið

Elvar Geir Magnússon skrifar
Eiður og Eyjólfur landsliðsþjálfari.
Eiður og Eyjólfur landsliðsþjálfari.

Eiður Smári Guðjohnsen mun byrja leikinn gegn Spáni á varamannabekknum. Hann tjáði sig við íslenska blaðamenn í dag og talaði þar meðal annars um utanaðkomandi gagnrýni á landsliðið.

„Ég er ekki í líkamlegu formi til að byrja inná og ég held að það sé alveg ákveðið að það verði ekki þannig," sagði Eiður en Hermann Hreiðarsson mun bera fyrirliðabandið á morgun.

Eiður var einnig spurður út í þá gagnrýni og neikvæðu umfjöllun sem íslenska landsliðið hefur fengið. „Hvað mig varðar þá tek ég voðalega lítið mark á því. Ég þarf ekki að lesa það eftir einhvern annan hvort ég er búinn að vera að spila illa eða ekki."

„En öll þessi umræða um metnaðarleysi, áhugaleysi og að menn séu ekki til í að leggja sig fram finnst mér út í hött. Ég hlusta ekki á þetta, það er enginn að fara að labba inn á völlinn og leggja sig ekki fram," sagði Eiður á blaðamannafundinum.

„Þegar menn eru að gagnrýna verður að skrifa þá gagnrýni á réttan hátt og menn þurfa að kyngja því. Ég lifi í þannig heimi að gagnrýnin hér á Íslandi er bara dropi í hafið miðað við það sem ég hef fengið að kynnast annarstaðar. Þetta er eitthvað sem ég get vel lifað við og missi ekki svefn yfir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×