Lífið

Kiddi Vídjófluga byrjaður að pakka fyrir Jamaíkaferðina í febrúar

Breki Logason skrifar
Kiddi Vídjófluga segist mjög spenntur fyrir að fara í fyrsta skipti til útlanda.
Kiddi Vídjófluga segist mjög spenntur fyrir að fara í fyrsta skipti til útlanda.

„Ég fer núna 24.febrúar með tveimur vinum mínum og Bjartmar verður líka," segir Kristinn A Kristmundsson betur þekktur sem Kiddi Vídjófluga en hann er á leiðinni til útlanda í fyrsta skipti á ævinni.

Kidda þekkja margir eftir að hann kom fram í Dagsljósi Ríkisútvarpsins fyrir um fimmtán árum síðan. Þá sagði hann frá videoleigunni sinni, útfararþjónustunni og miklum áhuga sínum á diskódansi.

Kiddi er á leiðinni til Jamaíka með tveimur vinum sínum en það mun hafa verið sjálfur Bjartmar Guðlaugsson tónlistarmaður sem plataði Kidda til þess að bregða sér af landi. „Ég er að passa kettina hans Bjartmars en hann fer út með honum Rúnari Júl til Jamaíka. Það má segja að Rúnar hafi platað Bjartmar og svo hann mig," segir Kiddi sem hefur ekki getað komist af landi brott þar sem hann hefur séð um foreldra sína í gegnum tíðina.

„Það hefur bara aldrei gefist tími en mamma vinar míns ætlar að sjá um reksturinn á meðan við erum úti. Ég er fullhraustur maður og þeir segja að þegar maður prófar að fara einu sinni geti maður ekki hætt, ætli það verði ekki svoleiðis hjá mér," segir Kiddi og skellihlær.

Kiddi segir mikinn kunningsskap hafa myndast milli þeirra Bjartmars eftir að sá síðarnefndi flutti austur og fór að versla á videoleigunni hjá Kidda á Egilstöðum. „Síðan er ég gamall diskóbolti og hef verið að leika mér í því enn þann dag í dag. Við Bjartmar vorum að skemmta saman á Eiðum hérna í gamla daga og þekkjumst síðan þá."

Kiddi býr og starfar á Egilstöðum en hans aðalstarf er rekstur Videoflugunnar auk þess sem mikið er að gera hjá honum í Útfararþjónustunni. Í sumar fékk Kiddi þá flugu í höfuðið að setja upp gos- og sælgætissjálfsala úti í miðri náttúrunni. „Ég setti þetta upp á jörð sem bróðir minn á og er á Borgarfirði-eystri. Það hefur gengið ágætlega og ég hef meðal annars fengið póstkort erlendis frá þar sem fólk er að þakka mér fyrir," segir Kiddi sem horfir ekki bara á peningana í rekstri sínum.

„Mér hefur hlýnað afskaplega um hjartarætur þegar ég fæ svona kort. Ég vil gera eitthvað sniðugt og gleðja fólk, það er mjög ríkt í mér."

Kiddi er afskaplega spenntur fyrir Jamaíkaferðinni enda aldrei farið út fyrir landsteinanna. „Ég hringdi í Bjartmar um daginn og var að spyrja hann út í matinn og svona. Maður er auðvitað smeykur við að borða mat einhversstaðar sem maður hefur ekki komið áður," segir Kiddi og hlær.

Þó hann hafi ekki pakkað fyrir utanlandsferð áður þá ætlar hann ekki að klikka á smáatriðinum núna. „Ég er einmitt að horfa á fínu bolina sem ég hef keypt og ætla að fara með. Síðan er ég með flottar stuttbuxur líka sem ég ætla að taka með. Ég er sko löngu byrjaður að pakka," segi Kiddi sem lofar fínum pistli á Vísi þegar hann kemur heim eftir ellefu daga ferð á Jamaíka.

Hér má sjá innslagið með Kidda úr Dagsljósi sem birtist fyrir fimmtán árum síðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.