Innlent

Maður sem rauf farbann hyggst snúa aftur til Íslands

Maðurinn var handtekinn á landamærum Póllands og Þýskalands.
Maðurinn var handtekinn á landamærum Póllands og Þýskalands. MYND/Guðmundur

Pólverji sem grunaður er um nauðgun og rauf farbann, sagði við yfirheyrslu hjá pólsku lögreglunni að hann hygðist snúa aftur til Íslands.  Pólsk lög koma í veg fyrir að hann verði framseldur. 

Lýst var eftir manninum eftir að ljóst var að hann hafði haldið héðan af landi brott þrátt fyrir að hafa verið úrskurðaður í farbann vegna gruns um aðild að nauðgun á Selfossi. Pólska lögreglan handtók hann á landamærum Póllands og Þýskalands á mánudaginn og yfirheyrði í framhaldinu. Samkvæmt upplýsingum sem fréttastofan fékk frá dómsmálaráðuneytinu sagði hann lögreglunni við yfirheyrslur þar að hann ætlaði sér að koma aftur til Íslands sjálfviljugur.

Ekki hefur enn verið lögð fram formleg framsalsbeiðni vegna mannsins en það verður gert á næstu dögum. Pólsk lög koma í veg fyrir að hann verði framseldur frá Póllandi þar sem stjórnvöld þar í landi neita að framselja þegna sína. Sambærileg lög eru í gildi hér á landi en íslensk lög banna að íslenskir ríkisborgarar séu framseldir frá Íslandi.

Fari svo að maðurinn snúi ekki sjálfur aftur hingað til lands geta íslensk stjórnvöld farið þess á leit við pólsk stjórnvöld að þau sæki málið gegn honum í Póllandi. Gögn málsins yrðu þá flutt út og saksóknari þar í landi myndi sjá um að sækja málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×