Innlent

300 fermetrar flettust af þaki Austurbæjarskóla

Ef grannt er skoðað sést glitta í bílinn undir koparhrúgunni.
Ef grannt er skoðað sést glitta í bílinn undir koparhrúgunni. MYND/Anton Brink

Koparþak flettist af Austurbæjarskóla í óveðrinu í nótt og lentu víðsvegar um Vitastíg. Þakplöturnar flettust af og lenti stór hluti á bifreið sem talin er gjörónýt. Fleiri bílar skemmdust í atganginum og fjórir gluggar á skólanum brotnuðu. Skólastjórinn segir tjónið gríðarmikið en um 300 fermetrar af þakinu fóru.

„Ég var ræstur út af björgunarsveitinni klukkan hálfsex í morgun,“ segir Guðmundur Sighvatsson, skólastjóri Austurbæjarskóla. Hann segir engan leka hafa komið að þakinu og því sé tjónið innandyra lítið sem ekkert. Engin röskun varð á kennslu í morgun því Vitastíg hafði verið lokað áður en börnin mættu í skólann.

„Nú erum við að funda um framtíðina því mér skilst að veðrið versni aftur í kvöld,“ segir Guðmundur. Menn séu því að leita leiða til að koma í veg fyrir að fleiri þakplötur fari á loft.

Þakið var yfir miðálmu skólans og engar kennslustofur eru í þeim hluta byggingarinnar. Guðmundur segir tjónið mjög mikið, en þakið var sett á skólann 1947.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×