Innlent

Enn deilt um þingskapafrumvarp á Alþingi

Þingmenn vinstri - grænna deildu hart á aðra flokka á Alþingi í morgun fyrir að afgreiða frumvarp um breytingar á þingsköpum gegn vilja flokksins. Þingmenn annarra flokka sögðu vinstri - græna hins vegar ekki hafa viljað málamiðlanir í málinu.

Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður Vinstri - grænna, sagði þingmenn flokksins hafa sett fram málamiðlanir vegna frumvarpsins og að þeir hefðu verið tilbúnir að staðfesta lögin eigi síðar en 8. febrúar en ræða málið betur þangað til. Sagði hann að þetta snerist ekki bara um ræðutíma heldur einnig vinnulag.

Ögmundur sagði að hinn nýi þingskapameirihluti hafi ekki viljað hlusta á vinstri - græna og framsóknarmenn og frjálslyndir hefðu jafnvel gengið mest fram af óbilgirni. Sagði hann fulltrúa Framsóknarflokksins í allsherjarnend líklega þjakaðan af lýðræðisþreytu vegna umræðna um Kárahnjúkavirkjun, Írak og fleiri umdeild mál. Samfylkingunni liði vel í faðmi Sjálfstæðisflokksins og Sjálfstæðismenn væru ekki stórir í sniðum þótt fjölmennir væru á þingi.

Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, sagði mikilvægt að umræða um þessi mál færi fram í dagsljósinu þannig að fólk gæti sem flest fylgst með henni og allir gætu tekið þátt á málefnalegan hátt í umræðum um málið. Sagði hann það koma á óvart að í lok umræðunnar væru nú vinstri - grænir tilbúnir að semja um málfrelsið en það hefðu þeir ekki verið tilbúnir í upphafi umræðunnar um frumvarpið.

Siv Friðleifsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, sagði að mörg tækifæri hefðu gefist til að semja um frumvarpið og allir flokkar hefðu tekið þátt í umræðum um það nema vinstri - grænir. Það hafi verið vegna þess að þeir hafi ekki ætlað að vera með frá upphafi. Þegar væri búið að lengja umræðutíma frá því sem upphaflega var gert ráð fyrir í þingskapafrumvarpinu. Benti Siv því að markmiðið væri að gera Alþingi að fjölskylduvænni og nútímalegri vinnustað. „Ég vorkenni vinstri - grænum í þessu máli, þeir vilja ekki vera með í þessu máli," sagði Siv og sagði flokkinn hafa dæmt sig til einangrunar.

Jón Magnússon, þingmaður Frjálslynda flokksins, sagði að þingskaparmeirihluti allra flokka nema Vg væri tilkominn vegna þess að verið væri að flytja skynsamlegar tillögur og þær hefðu ekkert með ríkisstjórn og stjórnarandstöðu að gera.

Sagði hann ræðutíma lítillega skertan en gengið til móts við Vinstri - græna. Þeir sem væru í andstöðu gætu ekki endalaust talað um að brotið væri á þeim ef þeir gæfu ekkert eftir sjálfir. Sagði hann tillögurnar byggjast á heilbrigðri skynsemi en þetta væri ekki í fyrsta og ekki í síðasta skiptið sem stefna Vg og heilbrigði skynsemi í væru andstöðu hvert við annað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×