Lífið

Ölið trekkir á leiksýningu

Leikhópurinn Peðið
Leikhópurinn Peðið MYND/Fréttablaðið
Leikhópurinn Peðið frumsýnir þann fyrsta desember á menningarbúllunni Grand Rokk söngleikinn Tröllaperu. ,,Þetta er söngleikur með svona nútímavæddu þjóðlegu ívafi" segir Jón Benjamín Einarsson höfundur verksins, sem fjallar meðal annars um Giltrutt, Leppalúða og jólasveinana.

Verkið gerist síðasta daginn áður en Stekkjastaur fer til byggða og lýsir veisluhöldum og heimilislífi tröllanna, sem hingað til hefur verið hulið. Gilitrutt og Leppalúði bjóða vinahjónum sínum í bóndasteik og er samkvæmið allt eins og við má búast frekar grófgert. Jón segir að frekar létt sé tekið á málum og verkið sé allt hið skoplegasta. ,,Við settum upp verk í fyrra sem fjallaði um fæðingu Jesús, svo það er verið að klára jólahald íslendinga.

Leikhópurinn hafði haft í hyggju að setja upp annað verk í nóvember. Það gekk ekki sem skildi og datt upp fyrir þegar einn aðalleikaranna var settur í bann á barnum. ,, Þetta var nú aðallega byggt á misskilningi sem svo rættist úr." segir Jón. Þegar málin leystust hafi hinsvegar verið lítil stemning fyrir verkinu og því hafi verið ákveðið að skella í jólasöngleikinn.

Verkið er flutt á efri hæð Grand Rokks. Jón segir að það séu bæði kostir og gallar við að sýna leikverk á öldurhúsi. Hópurinn hefur haft þann háttinn á að fólk má taka drykki með sér af neðri hæðinni. Fólk sé óvenju viljugt að mæta á sýningar og leikararnir mæti sömuleiðis óvenju snemma og vel á æfingar. Ókostirnir séu þó að freistingarnar á barnum á neðri hæðinni geti verið miklar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.