Lífið

Þakmálið ógurlega: Nýr Hebbi í nýju húsi

Breki Logason skrifar
Herbert Guðmundsson segist ætla að flytja úr hverfinu en hann hefur átt í deilum við nágranna sína undanfarið.
Herbert Guðmundsson segist ætla að flytja úr hverfinu en hann hefur átt í deilum við nágranna sína undanfarið.

„Ég nenni þessu ekki lengur, ég ætla að selja húsið mitt með þriggja milljón króna afslætti og fara héðan," segir Herbert Guðmundsson sem hefur staðið í stríði við nágranna sína síðan í sumar.

„Hvernig er hægt að rukka mig fyrir að gera við þakið mitt 16 árum síðar, hvað er í gangi hérna?," segir Hebbi greinilega mjög æstur yfir frekju, yfirgangi og grimm nágranna sinna eins og hann orðar það.

 

Árið 1991 lét Herbert klæða þakið á raðhúsi sínu í Breiðholtinu en nú vilja nágrannarnir gera hið sama og fá hann til þess að taka þátt í kostnaðinum. Málið hefur ratað í fjölmiðla og nú bíður Herbert eftir fundi með Jóhönnu Sigurðardóttur sem var ráðherra þegar fjöleignarlögin voru sett á sínum tíma. „Þetta er gölluð lög og þetta fólk á bara að láta okkur í friði og gera við sín þök."

 

Herbert segir að hann hafi fengið senda reikninga upp á 50.000 fyrir viðgerðunum sem allir hafi farið í ruslið. Nú er búið að stefna honum og konu hans. „Það er búið að hækka hússjóðinn úr 50.000 í 500.000 er það eðlilegt?," spyr Hebbi sem er búinn að fá sig fullsaddan af nágrönnum sínum.

 

„Við erum að flýja úr þessu húsi vegna frekju, og grimmdar þessa fólks. Þetta er vont fólk. Hver heldurðu að vilji búa með svona fólki?". Herbert segir að þau hjónin séu búin að ákveða að minnka við sig og eru þegar farin að hugsa sér til hreyfings.

 

Hebba er greinilega mikið niðri fyrir og segir málið efni í góðann Reyfara.

 

En þrátt fyrir þetta stríð við nágranna sína gefur Herbert sér tíma í hljóðveri til þess að vinna að nýju plötunni sinni. „Sonur minn sem er 17 ára spilar á hljómborð hjá mér og annar sonurinn er að tromma. Þetta er svona gospel tónlist og guð er að tala við mig. Platan lofar mjög góðu og það má segja að þetta sé nýr Hebbi."

 

Herbert segir þessa plötu vera á hægara tempói en hann hefur áður verið. „Þetta er bara flygill, kassagítar og lögin fá aðeins að anda. Það var einn sem sagði við mig að þetta væri í anda síðustu plötu Johnny Cash," segir Hebbi sem lætur nágrannerjurnar ekki hafa áhrif á sig.

 

„Ég er sterkur karakter og stend á mínu. Platan kemur út þegar hún er tilbúin. Þá verður þetta bara nýr Hebbi í nýju húsi."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.