Lífið

Fimmtíu og sex fegurðardrottningar á Kjarvalsstöðum á laugardag

Ungfrú heimur 1969 í túlkun Birgis Snæbjörns Birgissonar
Ungfrú heimur 1969 í túlkun Birgis Snæbjörns Birgissonar MYND/Birgir Snæbjörn Birgisson
Sýningin Ljóshærð ungfrú heimur, eftir listamanninn Birgi Snæbjörn Birgisson verður opnuð á Kjarvalsstöðum laugardaginn 16. klukkan fjögur. Sýningin samanstendur af myndum af fegurstu konum heims í rúmlega fimmtíu ár.

Keppnin um fegursta fljóð veraldar hóf göngu sína árið 1951. Birgir hefur málað andlitsmyndir af öllum sigurvegurum keppninnar frá upphafi en serían er sýnd í fyrsta skipti á Kjarvalsstöðum frá og með næsta laugardegi. Hluti málverkanna var fyrst sýndur í Gautaborg fyrr á þessu ári en sýningin í Listasafni Reykjavíkur fer síðan til Lundúna.

Í bók sem fylgir sýningunni talar Hafþór Yngvason, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur um þau heildaráhrif sem verk Birgis hafa: „Hann hefur valið sér efni sem byggir jafn mikið á endurtekningunni og málverkin sjálf. Hver ný fegurðardrottning er lík þeirri næstu á undan og hver og ein þeirra staðfestir gildi fyrirrennara síns. Málverk hans líkja eftir þeirri fjöldaframleiðslu sem á sér stað í fegurðarsamkeppnum en á sama tíma skopstæla þau áhrif þeirrar framleiðslu."

Sýningarstjóri er Mika Hannula, rithöfundur, fyrirlesari, og gagnrýnandi. Hann starfar sem prófessor í listrannsóknum við myndlista- og hönnunardeild Háskólans í Gautaborg.

Sýningin opnar sem fyrr sagði á laugardaginn klukkan 16:00 og stendur til 13. janúar 2008. Sunnudaginn 18. nóvember klukkan 15:00, ræðir Mika Hannula við listamanninn á Kjarvalsstöðum. Samtalið fer fram á ensku.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.