Lífið

Bjóst við að fara af stað á Eddunni

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Frá afhendingu verðlauna fyrir Handrit ársins í gærkvöldi.
Frá afhendingu verðlauna fyrir Handrit ársins í gærkvöldi. MYND/Daníel R.

Það fór ekki framhjá þeim sem fylgdust með Edduverðlaununum í gærkvöldi að leikkona ársins, Nanna Kristín Magnúsdóttir, er með barni. Nanna er komin 38 vikur og segist hafa búist við að fara af stað á meðan verðlaununum stæði, en svo hafi þó ekki orðið. „Ég var svo innilega glöð í hjarta mínu að fá verðlaunin, þetta var yndisleg tilfinning," segir Nanna. Hún bætir við að það hljóti að hafa verið erfitt fyrir valnefndir að velja í flokkinn, því frammistaða margra annarra leikkvenna hafi verið frábær.

Nanna Kristín segist hafa ákveðið að fara alla leið þegar hún keypti kjól eftir Dolce Gabbana hjá Sævari Karli. „Það er ekki oft sem maður er tilnefndur til Edduverðlauna og ekki oft sem maður er barnshafandi." Hún vill ekki gefa upp kaupverð en segist einfaldlega hafa ákveðið að gera vel við sig; „Ég sló líka tvær flugur í einu höggi og hugsaði hann sem jóla og áramótakjól, enda passa ég ekki í neitt í fataskápnum," segir hún.

Myndin Foreldrar hlaut sex Edduverðlaun. Auk verðlauna fyrir bestan leik kvenna hlaut Nanna einnig verðlaun fyrir handrit ársins sem hún skrifaði ásamt Ragnari Bragasyni, Ingvari E. Sigurðssyni, Víkingi Kristjánssyni og Leikhópnum. Myndin hlaut einnig verðlaun í flokkunum myndataka og klipping, leikari ársins, leikstjóri ársins og kvikmynd ársins. „Við vissum að við höfðum góða mynd í höndunum, en auðvitað er það þvílíkur bónus að fá þessi verðlaun," segir Nanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.