Lífið

Nancy Sinatra væntanlega með tónleika á Íslandi á næsta ári

Geir Ólafsson, söngvari.
Geir Ólafsson, söngvari. MYND/PB

Góðar líkur eru á því að stórsöngkonan Nancy Sinatra haldi tónleika hér á landi í mars á næsta ári. Geir Ólafsson, söngvari, segir söngkonuna hafa litist vel á aðstæður á skemmtistaðnum Broadway.

„Henni voru sýndar ljósmyndir af aðstæðum á Broadway og leist bara vel á," sagði Geir Ólafsson, söngvari, í samtali við Vísi. „Eins og staðan er núna eru bara mjög góðar líkur á því að hún komi hingað til lands."

Geir hefur um nokkurt skeið unnið að því að fá Nancy til að halda tónleika hér á landi. Hann hefur meðal annars verið í sambandi við söngkonuna í gegnum píanistann Don Randy, sem hefur bæði spilað með henni og föður hennar Frank Sinatra. Don Randy kemur hingað til lands í næstu viku til að spila með Geir í tilefni af útgáfu hljómplötunnar Þetta er lífið. Um er að ræða fyrstu sólóplötu Geirs Ólafssonar.

Nancy Sinatra verður á tónleikaferðalagi um austurströnd Bandaríkjanna í byrjun næsta árs. Geir segir líklegt að hún nýti tækifærið til að koma hingað til lands. „Það væri virkilega gaman að fá hana. Á meðan hún er ekki búin að segja nei er allt í lagi að vera bjartsýnn."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.