Lífið

Björgvin Halldórsson með fimm stjörnu tónleika í Köben

Björgvin og Sigga Beinteins ásamt stórhljómsveit í Laugardalshöll í fyrra
Björgvin og Sigga Beinteins ásamt stórhljómsveit í Laugardalshöll í fyrra MYND/365

Björgvin Halldórsson hefur verið fenginn til að halda tónleika í Cirkus í Kaupmannahöfn á vegum Hótelbókana í Kaupmannahöfn en það fyrirtæki stóð fyrir margrómuðum tónleikum með Stuðmönnum og Sálinni á sama stað í fyrra. Tónleikarnir verða haldnir þann 24. apríl næstkomandi eða á sumardaginn fyrsta.

Björgvin kom fram sem leynigestur á tónleikunum í fyrra og segir hann þá hafa komið til tals að hann myndi leiða næstu tónleika. Verkefnið leggst mjög vel í Björgvin og segir hann Cirkusbygginguna stórglæsilega. „Þetta er fimm stjörnu dæmi."

Björgvin mun taka megnið af því efni sem hann flutti á tónleikunum sem hann hélt í Laugardalshöll í fyrra. Hann mun mæta til leiks ásamt stórhljómsveit og Sinfóníuhljómsveit Konunglegu Óperunnar í Kaupmannahöfn. Þá munu nokkrir af fremstu dægurlagasöngvurum landsins koma fram og má þar nefna Stefán Hilmarsson, Svölu Björgvins, Siggu Beinteins, Eyjólf Kristjánsson og Regínu Ósk.

Tónleikarnir eru haldnir í samstarfi við Icelandair og fara fram undir borðhaldi í Cirkusbyggingunni sem rúmar 900 manns í sæti. Að sögn Björgvins er mikil eftirspurn eftir miðum en sala hefst á vefsíðu Icelandair innan skamms.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.