Demi Moore hefur ákveðið að opna umræðu um æskudýrkun í Hollywood. Hún viðurkennir að hafa eytt um 28 milljónum í lýtaaðgerðir í von um að geta keppt við ungar stjörnur um hlutverk, en án árangurs.
Hin 44 ára leikkona segir síðustu ár hafa verið erfið. "Það eru ekki mörg góð hlutverk í boði fyrir konur yfir fertugt. Þú færð mögulega tilboð um að leika móður einhvers eða eiginkonu," segir Moore í samtali við tímaritið Red.
Eftir röð misheppnaðra mynda sem Moore lék í á tíunda áratugnum ákvað hún að taka sér frí frá störfum og undirgekkst fjölda lýtaaðgerða. Hún fór meðal annars í fitusog, brjóstastækkun og andlitslyftingu og eyddi formúgum í allskyns heilsukúra og einkaþjálfun.
Moore sást síðan aftur á hvíta tjaldinu árið 2003 í myndinni Charlie's Angels þar sem hún kom fram í bikiníi sem sýndi bersýnilega árangur aðgerðanna. Þrátt fyrir það hefur leikkonan ekki haft mikið að gera og einungis leikið í tveimur myndum síðan á meðan fyrrverandi eiginmaður hennar Bruce Willis hefur til samanburðar leikið í þrettán myndum á sama tíma.
Moore sem áður halaði inn hundruðum milljóna fyrir að leika í kvikmynd vill að eldri konur geti fengið bitastæð hlutverk. "Konur eiga fullt eftir þó að þær skríði yfir þrítugt. Við eigum ekki að bíða eftir því að eitthvað gerist. Við eigum að viðurkenna að við séum reiðar og ekki að sætta okkur við þetta."