Íslenski boltinn

Eiður Smári: Sigurinn tileinkaður Ásgeiri

Elvar Geir Magnússon skrifar
Eiður og Eyjólfur Sverrisson.
Eiður og Eyjólfur Sverrisson.

Eiður Smári Guðjohnsen byrjaði á bekknum gegn Norður-Írum en kom inn sem varamaður þegar tæpar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. Hann var í baráttunni í teignum þegar Norður-Írar settu boltann í eigið mark á 89. mínútu leiksins.

„Það er meiriháttar fínt að vera kominn í fótbolta aftur. Nokkrum sinnum hefði ég viljað fá stungusendingar aðeins fyrr. Ég er samt bara ánægður með að hafa komist í gegnum þessar 35 mínútur en þessi þrjú stig eru á endanum mikilvægari en hvort ég geti spilað eða ekki," sagði Eiður eftir leik.

„Ég hugsa að ég hefði nú náð að pota boltanum inn ef varnarmaður þeirra hefði ekki séð um það sjálfur," sagði Eiður um sigurmarkið í leiknum. „Þrjú stig eru samt mun mikilvægari fyrir mig en eitthvað markamet. Metið kemur einhverntímann og ég mun njóta þess þegar það kemur."

„Þetta var enginn æðislegur leikur og hvorugt liðið spilaði flottan fótbolta. Það vantaði aðeins meiri hreyfileika án bolta og við buðum hættunni heim, sérstaklega í seinni hálfleiknum. En við misstum ekki trúna á að við gætum skorað annað mark og uppskárum sigur. Miðað við það sem við höfum lagt á okkur þá held ég að við höfum átt skilið að fá þessi stig."

„Þessi sigur er algjörlega tileinkaður Ásgeiri Elíassyni. Við viljum votta fjölskyldu hans samúð okkar. Hann var ekki bara frábær fyrir íslenskan fótbolta heldur var hann einnig meiriháttar persóna. Þetta er mikill missir," sagði Eiður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×