Innlent

Örfáar tilkynningar um brot á reykingabanni

Aðeins hafa borist örfáar tilkynningar til Vinnueftirlitsins um brot á banni við reykingum á veitinga- og skemmtistöðum frá því að reykingabann tók gildi fyrir réttum tveimur mánuðum. „Þessi atvik eru teljandi á fingrum annarrar handar og komu upp skömmu eftir að bannið tók gildi," segir Gylfi Már Guðjónsson, umdæmisstjóri Vinnueftirlitsins í Reykjavíkurumdæmi þar sem langflestir skemmtistaðanna eru.

Til samanburðar bárust 23 tilkynningar til Vinnueftirlitsins í Danmörku á fyrstu tveimur vikum reykingabanns þar í landi eftir því sem Jótlandspósturinn greindi frá í gær.

Gylfi segir að Vinnueftirlitið og umhverfissvið Reykjavíkurborgar hafi samstarf í málaflokknum þannig að umhverfissvið tilkynni um allar ábendingar sem því berist um hugsanleg brot á reykingabanninu til Vinnueftirlitsins. Þær ábendingar sem borist hafi, hafi verið frá starfsmönnum eða gestum veitingastaða. „Reykingabannið var vel undirbúið og menn vissu af því með góðum fyrirvara hvenær það tæki gildi. Hins vegar hefur þetta verið enn rólegra en við áttum von á," segir Gylfi.

Gylfi segir að þegar ábendingar berist um að reykingabann sé virt að vettugi fari Vinnueftirlitið á staðinn og kanni hvort það sé rétt. Ef svo reynist vera séu gerðar athugasemdir við það. Hann segir að mál þurfi að vera komin í verulegar ógöngur til þess að það reyni á viðurlög í málaflokknum. Þau séu að höfða mál gegn þeim sem brýtur lögin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×