Innlent

Háskólakennurum fjölgar um 12 prósent

MYND/GVA

Háskólakennurum hér á landi fjölgaði um 12 prósent á milli áranna 2005 og 2006 ef marka má tölur Hagstofunnar. Þær sýna að liðlega 200 manns sinntu háskólakennslu í fyrrahaust en þeir voru rétt um 1830 haustið áður.

Með því að bera saman fjölda starfsmanna annars vegar og fjölda stöðugilda þeirra kemur hins vegar í ljós að drjúgur meirihluti háskólakennara er í hlutastarfi. Í nóvember 2006 voru sex af hverjum tíu háskólakennurum með minna starfshlutfall en sem nemur einu stöðugildi, langflestir í minna en hálfu starfi. Til samanburðar voru sjö af hverjum tíu háskólakennurum í hlutastarfi veturinn 2000-2001. Hlutfallslega hefur því háskólakennurum í hlutastarfi fækkað en hinum sem eru í fullu starfi eða meira hefur fjölgað á tímabilinu.

Fleiri karlar í stöðum rektora, prófessora og dósenta

Tölur Hagstofunnar leiða í ljós að liðlega helmingur kennara við háskóla landsins eru aðjúnktar og stundakennarar. Prófessorar, dósentar og lektorar eru um 11 prósent háskólakennara hver starfsstétt fyrir sig.

Karlmenn eru í meirihluta í stöðum rektora, prófessora og dósenta en meðal lektora, aðjúnkta og lausráðinna stundakennara eru konur hins vegar fleiri. Af 236 prófessorum voru 44 konur eða 18,6 prósent og hefur konum fjölgað um 1,2 prósentustig í hópi prófessora frá fyrra ári.

Í nóvember 2006 voru karlar 51,9 prósent háskólakennara í 750 stöðugildum en konur 48,1prósent starfsmanna í 588 stöðugildum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×