Innlent

Einungis konur í fámennasta skóla landsins

Elín skólastýra: Líst ljómandi vel á komandi vetur. Mynd Jón G. Guðjónsson
Elín skólastýra: Líst ljómandi vel á komandi vetur. Mynd Jón G. Guðjónsson

Finnbogastaðaskóli í Árneshreppi á Ströndum er fámennasti skóli landsins með aðeins tvo nemendur og verður hann settur á morgun. Það vekur athygli að í skólanum verða einungis konur, starfsmennirnir þrír eru konur og nemendurnir tveir eru stúlkur, 7 ára og 10 ára. Nýráðin skólastýra er Elín Agla Briem.

"Mér líst alveg ljómandi vel á komandi vetur hér í Finnbogastaðaskóla," segir Elín Agla Briem. "Bæði er hér mikil náttúrufegurð í kring og svo mikil saga í kringum svæðið frá fornu fari en skólinn heitir í höfuðið á Íslendingasögukappanum Finnboga ramma." Auk Elínar starfar annar kennari við skólann og matráðskona.

Elín er nýflutt á Strandir en hún stundaði nám í heimspeki við Háskóla Íslands. Þar áður bjó hún um um nokkurra ára skeið í Englandi þar sem hún m.a. rak netverslun og lifði í Búddamiðstöð.

Aðspurð um hvort skólinn sé ekki einangraður á veturnar segir hún svo vissulega vera. "Skólinn er í Trékyllisvík í um 100 km fjarlægð frá Hólmavík. Vegasamband er mjög takmarkað á veturnar en það er flugvöllur í Gjögri og þangað er flogið tvisvar í viku á veturnar og þannig fáum við vistir og kost," segir Elín Agla.

Þess má geta að Finnbogaskóla helst vel á starfsfólki sínu. Þannig hefur samkennari Elínar, Bjarnheiður J. Fossdal, starfað við skólann í 26 ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×