Innlent

Ótækt að fjármálaráðuneyti og Ríkisendurskoðun deili

Heimir Már Pétursson skrifar

Formanni samgöngunefndar Alþingis og formanni Framsóknarflokksins finnst ekki ganga að fjármálaráðuneytið og Ríkisendurskoðun standi til lengdar í opinberum deilum um kostnaðinn við endurnýjun Grímseyjarferju. Ráðuneytisstjóri samgönguráðuneytisins kom fyrir samgöngunefnd í morgun og segir málið alvarlegt.

Embættismenn úr samgöngu- og fjármálaráðuneyti komu fyrir samgöngunefnd Alþingis í morgun, til að skýra hvers vegna kostnaður við kaup og endurbyggingu nýrrar Grímseyarferju hefur farið allt að 400 milljónir fram úr kostnaðaráætlun. Þeirra á meðal var Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri í samgönguráðuneytinu, en fljótlega eftir að málið komst í hámæli, sendi hún frá sér yfirlýsingu þar sem sagði að tekið yrði á málinu með viðeigandi hætti, án þess að skýra það út nánar.

Ragnhildur segir að í samgönguráðuneytinu sé þetta mál litið mjög alvarlegum augum. Hún sjálf beri ábyrgð á daglegum störfum ráðuneytisins. Nú sé verið að fara yfir alla verkferla í þessu máli til að tryggja að þeir endurtaki sig ekki. Hún vildi ekki svara því á þessari stundu hvort einhver í ráðuneytinu eða í Vegagerðinni fengi áminningu vegna málsins.

Árni M Mathiesen fjármálaráðherra og Ríkisendurskoðun hafa tekist á um það opinberlega hvort aukið fé til endurbyggingar ferjunnar hafi stuðst við lagaheimildir.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir formaður samgöngunefndar segir fundinn í morgun hafa verið gagnlegan og málefnalegan. Hún segir hins vegar ekki ganga að fjármálaráðuneytið frekar en önnur ráðuneyti standi í opinberum deilum við eftirlitsstofnun eins og Ríkisendurskoðun, sem hafi það hlutverk að fylgjast með hvernig farið sé með fjármuni ríkisins.

Steinunn segir þó báða aðila hafa nokkuð til síns máls.Guðni Ágústsson formaður Framsóknarflokksins og nefndarmaður í samgöngunefnd tekur undir það að deilum fjármálaráðuneytis og Ríkisendurskoðunar verði að ljúka.

Ríkisendurskoðun heyrir undir Alþingi. Guðni telur að málið hljóti að koma fyrir forsætisnefnd Alþingis. Nefndin og Alþingi verði svo að taka á því hvort Sturla Böðvarsson forseti Alþingis sé þar í viðkvæmri stöðu vegna fyrri starfa sinna sem samgönguráðherra.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×