Innlent

Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ segir allt tal um slysagildrur vera froðu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ hlakkar mikið til Ljósahátíðar.
Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ hlakkar mikið til Ljósahátíðar. Mynd/ GVA
„Það hefur verið mikil froða í kringum stóra gosbrunnamálið eftir að fréttir bárust af því að sápu var hent í brunninn," segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ.

Froða var sett í nýjan gosbrunn sem er staðsettur í miðjum Reykjanesbæ í gær og lak froðan um nálægar götur. Lögreglan segir brunninn vera slysagildru því ekki sjáist ofan í hann. Á botni brunnsins séu oddhvassir hlutir sem börn geti slasað sig á.

Árni undrast að fólk hafi hlaupið til og lýst yfir hættu í stað þess að spyrja sig út i gang mála. Hann bendir á að brunnurinn sé á stað sem ekki sé ætlaður til leiks. „Ég hafði bara ekki það ríkt hugmyndaflug að halda að einhverjum gæti dottið í hug að torg á miðri umferðaræð væri leiksvæði," segir Árni.

Auk þess bendir Árni á að í smíðum sé grind sem muni liggja yfir vatnsyfirborði brunnsins og koma í veg fyrir að fólk geti svamlað í tjörninni.

„En sápan sem var sett í brunninn í gær hefur gefið margar góðar hugmyndir. Einn kom með þá hugmynd að við héldum hátíðlegan sérstakan froðudag. Þá myndi froða leka úr brunninum um allan bæinn. Fólk gæti þá baðað sig í froðunni og notað hana til að þrífa húsin sín," segir Árni kampakátur, enda Ljósadagar framundan í Reykjanesbæ.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×