Innlent

Tveir alvarlega slasaðir eftir rútuslysið í Bessastaðabrekku

Björgunaraðgerðir eru að hefjast vegna rútuslyssins. Mynd úr safni.
Björgunaraðgerðir eru að hefjast vegna rútuslyssins. Mynd úr safni. Mynd/ Vilhelm Gunnarsson

Sextán manns slösuðust og þar af tveir mjög alvarlega þegar rúta með 31 farþega ók á klettavegg í Bessastaðabrekku í Fljótsdal á Héraði um eitt leytið í dag.

Nú rétt í þessu var verið að undirbúa flutning á tveimur hinna slösuðu með flugi á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og 10 annara á Landspítala-háskólasjúkrahús í Reykjavík. Fjórir voru lagðir inn á Heilbrigðisstofnun Austurlands í Neskaupstað.

Farþegarnir 31 voru pólskir og lettneskir verkamenn á leið frá Kárahnjúkum til Egilsstaða. Bílstjóri rútunnar náði ekki beygju í Bessastaðabrekkunni og ók á klettavegg.

Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar flugu austur auk Fokkerflugvélar Landhelgisgæslunnar sem notuð var við sjúkraflutninga. Þá kom sjúkraflugvéla frá Akureyri einnig til Egilsstaða. Fokker flugvél Flugfélags Íslands flaug austur með lækna og hjúkrunarfólk. Sjúkrabílar voru sendir á staðinn frá Egilsstöðum, Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði og Kárahnjúkum og björgunarsveitin Hérað var kölluð út.

Samhæfingastöðin í Skógarhlíð var virkjuð og hópslysaáætlun sett í gang. Rauði kross Íslands hefur sett upp fjöldahjálpastöð í grunnskólanum á Egilsstöðum og útvegað túlkaþjónustu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×