Innlent

Þorskurinn er hjarðdýr

Þorskurinn er hjarðdýr samkvæmt rannsóknum sem gerðar voru í Arnarfirði. Þetta gefur mönnum vonir um að í framtíðinni verði hægt ala þar upp sjálfbæra hjörð þorsks og rækju.

Rannsóknirnar hafa staðið yfir í Arnarfirði síðast liðin tvö ár en í þeim voru gerðar tilraunir til að vera með þorsk í hjarðeldi. Þá var atferli þorsksins skoðað sem og samspil hans við rækju. Niðurstöðurnar sýna að þorskurinn er í eðli sínu hjarðdýr og auðvelt er að ala hann í hjörðum.

Nú er búið að setja á fót vinnuhóp í umsjón Háskólaseturs Vestfjarða sem á að kanna hvort hægt sé að stunda hjarðeldi í Arnarfirðinum öllum. Arnarfjörður er svolítið sérstakur að því leyti að hann er þröskuldsfjörður. Það þýðir að er dýpstur innst í firðinum og grynnkar er utar dregur. Hugmyndin er að opna og loka firðinum að vild með hljóðbylgjum eða annari tækni þannig að þorskurinn komist ekki á haf út og loka svo fyrir innfirðina, það er Suðurfirðina og Borgarfjörð þannig að í þeim væri hægt að ala rækju.

Ef allt gengur að óskum verður hægt að veiða um 4000 tonn af bolfiski og um 1000 tonn af rækju úr firðinum árið 2015. Jón Þórðarson,útgerðarmaður, segir að þetta myndi hafa mikla þýðingu fyrir samfélagið á sunnanverðum Vestfjörðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×