Innlent

Lögga borgar 200 þúsund króna sekt

Úr myndasafni.
Úr myndasafni. MYND/Hari

Dómsátt hefur verið gerð í máli varðstjóra hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sem ákærður var fyrir að hafa misnotað stöðu sína og látið aka sér í forgangsakstri út á Keflavíkurflugvöll. Maðurinn þarf að greiða 200 þúsund krónur í sekt fyrir athæfið.

Atvikið átti sér stað í júní síðastliðnum og var maðurinn sakaður um að hafa nýtt sér mannafla lögreglu, bifreið og talstöðvar til þess að komast út á völl þar sem hann var að verða of seinn í flug til Kaupmannahafnar og tengiflugi til Litháen, en sú ferð var í einkaerindum.

Upp komst um málið þegar akstur lögreglubílsins var kannaður en það er gert í gegnum sérstakt kerfi. Fari bílarnir upp fyrir vissan hraða þarf að gera grein fyrir því en í þessu tilviki fór lögreglubíllin sem ók honum langt yfir leyfilegan hámarkshraða.

Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í dag og þá var gengið frá dómssátt og greiðir varðstjórinn 200 þúsund krónur í sekt fyrir athæfið. Varðstjóranum var vikið frá störfum á meðan málið var til meðferðar. Hann vildi ekki tjá sig um málið og sagðist myndu afgreiða málið innanhúss með sjálfum sér.

Páll Winkel aðstoðarríkislögreglustjóri segir að niðurstaðan verði skoðuð og metið hvort manninum verði veitt lausn að fullu eða hvort hann geti fengið starfið að nýju. Páll vildi ekki tjá sig um niðurstöðuna að öðru leyti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×