Innlent

Vilja sjá kælisbréf borgarstjóra

MYND/Valgarður

Samfylkingin krefst þess að borgarstjóri leggi fram bréf sem hann skrifaði til ÁTVR á dögunum þar sem hann mæltist til að bjórkælir búðarinnar yrði tekinn úr sambandi. Flokkurinn kallar einnig eftir upplýsingum um hvort borgarstjóri hafi staðið í fleiri bréfaskiptum við dagvöruverslanir í miðborginni. Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, segir að það kæmi sér á óvart ef bréfin eru fleiri, en þó ekki meira á óvart en kælisbréf borgarstjóra.

Fyrirspurn Samfylkingar er svohljóðandi: "Óskað er eftir því að bréf borgarstjóra um að bjórkælir verði tekinn úr sambandi hjá ÁTVR í Austurstræti verði lagt fyrir borgarráð sem og önnur bréf borgarstjóra sem innihalda ábendingar til dagvöruverslana og annarra rekstraraðila í miðborginni um hvernig þeir þjónusti viðskiptavini sína."

Dagur B. Eggertsson segist ekki búast við því að bréfin séu fleiri. „Ég vona nú að borgarstjóri hafi eitthvað betra við tíma sinn að gera en að standa í svona bréfaskriftum. Það kæmi mér á óvart, en þó ekki meira á óvart en bréfið til ÁTVR," segir Dagur. Hann segist búast við því að bréfið verði lagt fyrir á næsta fundi borgarráðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×