Innlent

Íslendingur handtekinn í Namibíu fyrir drykkjulæti

MYND/AFP

Íslenskur maður var handtekinn fyrir drykkjulæti í Namibíu á þriðjudaginn var. Maðurinn mun vera atvinnulaus og án landvistarleyfis og verður honum að öllum líkindum vísað úr landi.

Vilhjálmur Wiium, umdæmisstjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og staðgengill sendiherra í Namibíu, staðfestir þetta í samtali við Vísi. „Við höfum heyrt af þessu og vitum að Íslendingur var handtekinn í litlum bæ, Omarruru, fyrir drykkjulæti," segir Vilhjálmur. Hann sagðist hafa heyrt af því að maðurinn væri ekki með landvistarleyfi og jafnvel með útrunnið vegabréf, en það hefur enn ekki fengist staðfest. „Ef það reynist rétt að maðurinn sé án landvistarleyfis þá er það lögbrot," segir Vilhjálmur og segir líklegast að honum verði vísað úr landi.

Maðurinn, sem er vélavörður, kom til Namibíu á íslensku skipi fyrir hartnær ári síðan. Skipið var síðan selt og við það missti maðurinn vinnuna. Hann ákvað hins vegar að vera áfram í landinu, en að sögn Vilhjálms virðist vera að hann hafi aldrei sótt um tilskilin leyfi fyrir landvist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×