Innlent

Ónýttar fjárlagaheimildir nema hátt í 20 milljörðum

Gunnar Svavarsson formaður fjárlaganefndar: Rætt um ónýttar fjárlagaheimildir.
Gunnar Svavarsson formaður fjárlaganefndar: Rætt um ónýttar fjárlagaheimildir.

Nú er lokið fundi fjárlaganefndar um Grímseyjarferjuna og viðtölum við fulltrúa fjármálaráðuneytisins. Gunnar Svavarsson formaður nefndarinnar segir að m.a. hafi verið rætt um ónýttar fjárlagaheimildir sem fluttar eru á milli ára og nema nú hátt í 20 milljörðum króna. Raunar er talan mun hærri ef lífeyrisskuldbindingar eru teknar með eða um 28 milljarðar króna.

 



"Það eru þessar ónýttu fjárlagaheimildir sem Ríkisendurskoðun vill fá út úr bókhaldi ríkisstofnana," segir Gunnar. "Ríkisendurskoðun telur að þetta sé í raun jafnstórt vandamál í bókhaldinu og framúrkeyrsla stofnana á fjárlagaheimildum sínum."

Ónýttar fjárlagaheimildir verða til með ýmsum hætti. Gunnar nefnir sem einfalt dæmi að Háskóli Íslands vilji kaupa ákveðið rannsóknartæki. Fær skólinn 500.000 kr. heimild til kaupana en tækið kostar 3 milljónir. Bíður skólinn þá í 6 ár með að kaupa tækið eða þar til hin árlega heimild dugir fyrir kaupunum. Á meðan safnast upphæðin saman sem ónýtt heimild.

"Við munum taka tillit til óska og ábendinga Ríkisendurskoðunnar við fjárlagagerð fyrir næsta ár," segir Gunnar.

Fjárlaganefnd mun aftur funda um Grímseyjarferjuna eftir 10 daga og þá verða boðaðir fulltrúar frá Samgönguráðuneytinu og Ríkiskaupum auk þess að Einar Hermannsson skipaverkfræðingur mun mæta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×