Innlent

Búið að bora fjörutíu prósent Héðinsfjarðarganga

Bergþéttingu er að ljúka í Héðinsfjarðargöngum og styttist í að menn komist á beinu brautina. Búið er að grafa tæp 40 prósent af göngunum.

Göngin eru tvískipt og vinna verktakar Háfells og Metrostav að þeim bæði frá Ólafsfirði og Siglufirði. Ólafsfjarðarmegin er búið að grafa um 1800 metra en frá Siglufirði eru menn komnir lengra, enda var byrjað þar fyrr. Frá Siglufirði er búið að grafa um 2.200 metra.

Þetta þýðir að búið er að grafa tæp 40 prósent af heildarlengd ganganna en þau verða fullkláruð 10.560 metrar að lengd. Framkvæmdin er stærsta einstaka verk hingað til á vegum Vegagerðarinnar.

 

Sigurður Oddsson, yfirmaður hjá Vegagerðinni, segir að vatn hafi ítrekað strítt gangagerðamönnum það sem af er og allt að 16 gráðu heitt Siglufjarðarmegin. Menn hafi þó átt von á þessu og engin óleysanleg vandamál komið upp.

Nú séu menn að nálgast beinu brautina eins og Sigurður orðar það. Bergþéttingu sé nánast lokið og heilt yfir gangi verkið vel. Göngin munu kosta um 7 milljarða króna og verða þau opnuð í lok árs 2009.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×