Innlent

Reynt áfram að koma Grímseyjarferjunni á flot

Haldið verður áfram að reyna að koma Grímseyjarferjunni á flot segir Vegamálastjóri. Hann sat fyrir svörum á fundi fjárlaganefndar í morgun þar sem farið var yfir málefni ferjunnar.

Á fundinum var farið yfir málefni Grímseyjarferju og hófst fundurinn klukkan níu í morgun. Meðal þeirra sem kallaðir voru fyrir fundinn var Jón Rögnvaldsson vegamálastjóri.

Jón sagði eftir fundinn að hann gæti ekki farið náið út í fundarefnið, nefndin yrði að greina frá því. Aðspurður um næstu skref sagði Jón að það væri að koma skipinu á flot. „Ég vona að það gangi vel. Það verður bara að sýna sig," sagði Jón aðspurður um það hvernig hann teldi að það myndi ganga.

Jón segir að verið sé að fara yfir allar verklagsreglur Vegagerðarinnar. „Það verður ekkert hægt að ljúka okkar úttekt á þessu í rauninni fyrr en skipið er komið í rekstur. Það er endapunkturinn," sagði Jón. Aðspurður vildi hann ekkert segja til um það hvenær það yrði. Áætlanir hefðu misfarist svo oft að best væri að segja sem minnst.

Búist er við að fjárlaganefnd gefi frá sér yfirlýsingu að fundi loknum seinna í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×