Innlent

LÍÚ vil að sjávarútvegsráðherra sendi rannsóknarskip strax til Grænlands

Friðrik J. Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ segir að senda eigi hafrannsóknarskip strax til Grænlands til að kanna ástand þorskstofnsins þar. Fram hefur komið í fréttum í vikunni að Hafrannsóknarstofnun eigi ekki fé til að fjármagna slíkan leiðangur. Friðrik bendir á að rannsóknarskipið Árni Friðriksson liggi nú við bryggju og verði þar allan næsta mánuð.

"Þetta þýðir að það kostar innan við 20 milljónir króna að fjármagna þennan leiðangur," segir Friðrik. "Það er því engin spurning að sjávarútvegsráðherra á að beita sér fyrir þvi strax að útvega fjármagn til þessara rannsókna."

Eins og fram hefur komið í fréttum er nú mokveiði af bolþorski við Austur-Grænland. Friðrik segir að það þurfti að sækja um leyfi hjá Grænlendingum til að senda rannsóknarskip á svæðið. Það leyfi ætti að vera auðsótt því það séu jafnmiklir hagsmunir fyrir Grænlendinga og okkur að ástand þorsksins á þessum slóðum sé kannað.

Friðrik bendir á að fyrr í ár hafi íslenskir torgarar orðið varir við mikið magn af þorski á grálúðusvæðinu milli landanna, það er vestur af Hampiðjutorginu. "Gamla kenningin er sú að seiðin gangi héðan og alist upp við Grænland og skili sér síðar á Íslandsmið að einhverju leyti sem fullorðinn þorskur," segir Friðrik. "Við þurfum hinsvegar að fá vitneskju um stofnstærðin og hvort þessi þorskur sé að koma eða fara á okkar mið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×