Innlent

Mikill fjöldi lögreglumanna segir upp störfum

Tvöfalt fleiri lögreglumenn hafa sagt upp störfum það sem af er árinu en báðust lausnar allt árið í fyrra. Framkvæmdastjóri Landssambands lögreglumanna segir að lögreglumenn séu óánægðir meðal annars með samruna lögregluembætta.



Forvígismenn lögreglumanna hafa átt fundi með fulltrúum stjórnvalda þar sem þeir hafa lýst áhyggjum sínum og rætt leiðir til að sporna við þessari öfugþróun.

Lögreglumenn hafa auk þess af því áhyggjur hversu margir ófaglærðir lögreglumenn starfa við hlið þeirra fagmenntuðu.

Fimm lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu sögðu upp störfum í síðustu viku en flestir þeirra sem beðist hafa lausnar frá störfum á þessu ári hafa einmitt verið í starfi á höfuðborgarsvæðinu.

Auk þessa eru 13 lögreglumenn í launalausu leyfi en að sögn Steinars Adolfssonar, framkvæmdastjóra Landssambands lögreglumanna, er slíkt leyfi gjarnan undanfari uppsagnar.

Steinar segir að launakjörin séu stór áhrifavaldur í þessari öfugþróun. Hann segir að starfsumhverfi lögreglumanna sé auk þess mjög erfitt og krefjandi. Sameining lögregluembættanna á höfuðborgarsvæðinu og annars staðar hafi einnig valdið óánægju hjá lögreglumönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×