Innlent

Þakkar íslenskum bréfriturum lífgjöfina

Eduardo Grutzky fyrrum samvisku fangi í Argentínu segist vera lifandi af því að fyrir þrjátíu árum hafi nokkrir Íslendingar skrifað bréf til fangelsisstjóra í Argentínu.

Nú er hann á Íslandi til að þakka fyrir lífgjöfina. Grutzky sagði í samtali við Stöð tvö að hann hefði verið handtekinn átján ára að aldri, pyntaður hræðilega í fangelsi og skilinn eftir til að deyja. Skyndilega hefðu sex eða sjö læknar og hjúkrunarfræðingar komið til hans og farið með hann á sjúkrahús.

"Þetta var mér ráðgáta," segir hann. Einu eða tveimur árum síðar hefði hann hins vegar heyrt að fangelsisstjórinn hefði fengið bréf frá Íslandi, sem farið hefðu fram á lausn hans.

Torfi Geir Jónsson verkefnisstjóri hjá Íslandsdeild Amnesty segir að sjaldgæft sé að íslenskir bréfritarar Amnesty sjái lifandi sönnun þess að bréfaskriftir þeirra beri árangur en þetta sé eitt slíkt tilfelli.

Eftir sjö ár í fangelsi losnaði Grutzky loks úr argentínska fangelsinu og komst til Svíþjóðar. Þar vinnur hann nú að málefnum innflytjendakvenna og - barna.

Hann heldur fyrirlestur um það efni í Norræna húsinu á föstudag kl. 17.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×