Innlent

Endurtekið efni hjá dönskum umhverfissamtökum

„Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi umræða kemur upp og ekkert nýtt í þessu," segir Ólafur Haukur Ólafsson, framkvæmdastjóri hjá Ó.Johnson & Kaaber sem flytur inn Colgate-tannkrem. Danskir miðlar greina frá því í dag að tvær tegundir Colgate-tannkrems hafi að geyma efnið triclosam sem sé umhverfisskaðlegt og hafa yfirvöld í mörgum evrópskum löndum, þar á meðal Danmörku, Svíþjóð og Þýskalandi, hafa ráðið fólki frá að neyta þess.

Triclosan hefur í áratugi verið notað sem aukaefni í hreinlætisvörur og snyrtivörur og tannkrem. Efnið er bakteríudrepandi og hafa rannsóknir sýnt að með því að nota sífellt bakteríudrepandi efni rækti fólk upp harðgerari bakteríustofna sem jafnvel geti orðið ónæmir fyrir lyfjum.

Evrópusambandið skilgreindi efnið umhverfisskaðlegt fyrir tveimur árum en að sögn Ólafs Hauks er triclosan í tannkremstegundunum tveimur sem um ræðir, Colgate Total og Colgate Total Whitening, langt innan þeirra marka sem Evrópusambandið hafi sett.

Þá segir hann það rangt sem fram komi í frétt Jótlandspóstsins að engar sannanir séu fyrir því að tannkrem með triclosan sé betra en tannkrem án efnisins. Áralangar rannsóknir sanni hið gagnstæða. Þá bendir hann á að triclosan brotni niður í náttúrruni en safnist ekki upp.

Ólafur segir að umræðan um triclosan komi upp nær árlega í Danmörku og svo virðist sem lítil umhverfisverndarsamtök reyni að gera sér mat úr þessu ítrekað. „Þau tína til einhver efni og svo ráðast þau oftar en ekki á þau vörumerki sem eru stærst á markaði," segir Ólafur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×