Innlent

Höfðað til yngri leikhúsgesta á Akureyri

Dagskrá Leikfélags Akureyrar verður viðameiri í vetur en nokkru sinni, segir leikhússtjórinn.

Leikfélag Akureyrar kynnti í dag leikár næsta vetrar. Magnús Geir Þórðarson leikhússtjóri segir að áfram verði unnið eftir þeirri stefnu að höfða til yngri leikhúsgesta og verður fyrsta frumsýning vetrarins á fjölskylduleikritinu Óvitar! Það er eftir Guðrúnu Helgadóttur í leikstjórn Sigurðar Sigurjónssonar og er skemmst að minnast þess að 550 börn sóttust eftir sautján lausum stöðum í leikritinu.

 

Jólafrumsýning LA verður glæný leikgerð Gísla Rúnars Jónssonar á farsanum vinsæla, Fló á skinni. Þá verður nýlegt bandarískt verðlaunaverk, Ökutímar eftir Paulu Vogel, frumsýnt í byrjun nóvember en tónlistarkonan Lay Low semur og flytur tónlistina í sýningunni.

Eftir áramót verður nýtt íslenskt leikrit, Dubbeldusch eftir Björn Hlyn Haraldsson, frumsýnt en það er sett upp í samstarfi við Vesturport. Þá verður mikið um leiklestur og gestasýningar.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×