Innlent

Mun erfiðara að eignast fyrstu íbúð eftir innreið banka á fasteignamarkað

Mun erfiðara er fyrir fólk að eignast sína fyrstu íbúð núna en fyrir þremur árum þegar bankarnir héldu innreið sína á íbúðalánamarkaðinn.

Eins og við greindum frá í gær hafa vextir af íbúðalánum stóru bankanna hækkað um 40 prósent að jafnaði eða úr 4,15 prósentum og allt upp í 5,95 prósent frá því að bankanrir hófu að lána á þessum markaði fyrir þremur árum. Hér er átt við lán án ákvæða um endurskoðun vaxta á lánstímanum en allir bankarnir bjóða upp á þau kjör.

Á sama tímabili og þessi vaxtahækkun hefur orðið hefur launavísitala aðeins hækkað um rétt rúm 27 prósent, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar, en launavísitalan mælir launahækkanir á almennum vinnumarkaði. Það vantar því verulega á að lauanvísitalan haldi í við vaxtahækkunina.

Við þetta bæstist svo að íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur á þessu þriggja ára tímabili hækkað um tæp 69 prósent samkvæmt upplýsingum Fasteignamats ríkisins, eða um það bil tvisvar og hálfu sinnum meira en launavísitalan. Þá hækkun má að verulegu leyti rekja til innkomu bankanna á húsnæðismarkaðinn, eins og margoft er komið fram í umræðunni.

Samkvæmt heimildum fréttastofu mun þessi þróun meðal annars verða tekin til umræðu í komandi kjarasamningum þar sem hún er talin koma harðast niður á hinum almenna launamanni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×