Innlent

Ratsjárstöðvum verði stýrt frá Bolafjalli í stað Miðnesheiðar

MYND/Pjetur

Bæjarráð Bolungarvíkur samþykkti bókun á fundi sínum í dag þar sem lögð er áhersla á að stöfum fækki ekki í Bolungarvík í tengslum við uppsagnir starfsmanna Ratstjárstofnunar. Þá óskar bæjarráð eftir því að skoðað verði hvort mögulegt geti verið að öðrum ratsjárstöðvum á Íslandi verði fjarstýrt frá Bolafjalli í stað Miðnesheiðar. Einnig að skoðað verði hvort önnur störf á vegum Ratsjárstofnunar geti flust til Bolungarvíkur.

Með þessu ítrekar bæjarráð Bolungarvíkur bókun bæjarstjórnar frá 16. desember 2004 sama efnis. Í tilkynningu frá Grími Atlasyni, bæjarstjóra í Bolungarvík, kemur fram að forstjóri Ratstjárstofnunar hafi lýst því yfir á þeim tíma að það eina sem útilokaði flutning stjórnstöðvar stofnunarinnar til Bolungarvíkur væri krafa Bandaríkjamanna að starfsemin væri á Miðnesheiði. Nú hafi Íslendingar tekið við stofnuninni og í ljósi aðstæðna á Vestfjörðum sé eðlileg krafa að stjórnstöð og höfuðstöðvar Ratsjárstofnunar verði fluttar til Bolungarvíkur.

„Bæjarráð Bolungarvíkur ítrekar orð Einars Péturssonar fyrrverandi bæjarstjóra Bolungarvíkur frá 15. desember 2004, að framsýnum stjórnmálamönnum gefist þarna gott tækifæri til þess að sýna hvað þeir í rauninni meina með uppbyggingu starfa á landsbyggðinni" segir í tilkynningu bæjarstjórans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×