Innlent

Kolbrún Halldórsdóttir undirbýr frumvarp um hjónavígslur samkynhneigðra

Kolbrún Halldórsdóttir vill heimila hjónavígslur samkynhneigðra.
Kolbrún Halldórsdóttir vill heimila hjónavígslur samkynhneigðra. Mynd/ GVA

Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður VG, hyggst leggja fram frumvarp sem heimilar hjónavígslur samkynhneigðra. Þetta sagði Kolbrún í samtali við Vísi í kvöld. Hún fagnar því hve margir prestar eru hlynntir því að heimila staðfesta sambúð samkynhneigðra.

Kolbrún segir að ein hjúskaparlög eigi að gilda fyrir alla. Annað samræmist ekki stjórnarskránni. Hún segir að með lögum um staðfesta samvist frá 1996 hafi samkynhneigð pör öðlast nánast öll þau lagalegu réttindi sem gagnkynhneigð pör fái samkvæmt almennum hjúskaparlögum.

„Það var þó í meginatriðum einungis tvennt sem lögin heimiluðu ekki. Þau heimiluðu ekki kirkjulega vígslu og þau heimiluðu ekki að hjúskapur samkynhneigðra væri kallaður hjónaband. Þar með var ákvarðað með lögum að hommum og lesbíum bæri áfram að vera afmarkaður hópur á jaðri samfélagsins," segir í pistil sem Kolbrún skrifaði á vefsíðu sína í tilefni Hinsegin daga.

Kolbrún gerir ráð fyrir því að frumvarpið verði meðal þeirra mála sem lögð verði fram í upphafi þings, 1. október. Hún segist hafa kynnt málið í þingflokki VG og vel hafi verið tekið í það.

Kolbrún fagnar niðurstöðunum úr könnuninni sem gerð var á meðal presta, „Það er greinilegt að það er mikil viðhorfsbreyting að verða", sagði hún í samtali við Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×