Innlent

Ritar forstjóra Símans bréf og fer fram á skýringar

Bæði slökkviliðsstjórinn og bæjarstjórinn í Bolungarvík gagnrýna harðlega þau vinnubrögð sem Síminn viðhafði þegar símasamband í bænum var rofið í nótt. Bæjarstjórinn ritar nú forstjóra Símans bréf þar sem hann fer fram á skýringar á því hvers vegna bæjaryfirvöld og viðbragðsaðilar hafi ekki vitað af málinu fyrr en í gær.

Greint var frá því í fréttum í gær að lokað yrði fyrir símasamband, bæði um fastlínu og farsíma, í Bolungarvík í nótt sem leið á milli tvö og fjögur vegna viðhalds. Slökkviliðsstjóri bæjarins, Ólafur Benediktsson, heyrði fyrst af þessum lokunum um fimmleytið í gær. Hann er afar ósáttur við vinnubrögðin og segir í samtali við Vísi að hann hafi ekki trúað sínum eigin augum. Þetta sé mjög alvarlegt enda nauðsynlegt að allir viðbragðsaðilar viti af lokunum sem þessum.

Linda Björk Waage, upplýsingafulltrúi Símans, segir hins vegar að fyrirtækið hafi sent út tilkynningu þessa efnis strax á sunnudag. Tilkynningin frá Símanum var hins vegar aðeins send til Ríkisútvarpsins og á ritstjórn Bæjarins besta. Það sé vaninn í svona tilvikum. Linda Björk bendir á að NMT-símasamband hafi verið í bænum og hafi lögregla getað haft samskipti í gegnum það kerfi.

Grímur Atlason, bæjarstjóri í Bolungarvík, mjög ósáttur við þessi vinnubrögð en hann heyrði fyrst af lokunum í gærdag. Hann segir ljóst að bæjaryfirvöld hefðu átt að fá tilkynningar um málið miklu fyrr. Ótækt sé að almannavarnir og bæjaryfirvöld séu ekki inni í svona málum en sem betur fer hafi ekkert alvarlegt komið upp í nótt. Hann segist nú vera að vinna að bréfi til forstjóra Símans þar sem farið verði fram á skýringar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×