Innlent

Þyrlurnar að æra íbúana

Íbúar í litla Skerjafirði eru ævareiðir vegna þyrluflugs í og við nágrenni þeirra. Þeir segja húsin nötra og skjálfa þegar þyrlurnar eru gangsettar og þeim flogið yfir hverfið. Ítrekaðar kvartanir þeirra til borgaryfirvalda hafa engan árangur borið.

Færst hefur í vöxt að einstaklingar kaupi sér eða leigi þyrlur til að ferðast um landið. Eins og við geindum frá í fréttum okkar í gær þá er einn þeirra Magnús Kristinsson, útgerðarmaður í Vestmannaeyjum. Hann festi nýverið kaup á Bell 430 sem er átta manna stór og öflug þyrla, sérútbúin með leðursætum og minibar. Magnús notar þyrluna til að koma sér frá Vestmannaeyjum til lands en hann þarf starfsins vegna að fara hátt í áttatíu ferðir milli lands og eyja á ári.

Þyrlan hans Magnúsar sem og aðrar þyrlur hafa aðsetur á Reykjavíkurflugvelli, í næsta nágrenni við hverfi sem oft er kallað Litli Skerjafjörður. Íbúar þar er afar óhressir með þá miklu aukningu á þyrluflugi sem orðið hefur til og frá vellinum.

Þeir segja engan frið vera fyrir látunum í þyrlunum sem vomi yfir hverfi þeirra stundum í allt að 15 mínútur. Ástandið sé hreinlega óþolandi. Búið væri að skrifa borgarstjóra bréf en ekkert svar fengist.

Mest gremst íbúunum að staðsetning þyrluflugsins skuli ekki hafa verið kynnt fyrir þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×