Innlent

Ekki kemur til fjöldauppsagna hjá HB Granda

Ekki kemur til fjöldauppsagna hjá sjávarútvegsfyrirtækinu HB Granda í tengslum við þá ákvörðun stjórnar fyrirtækisins að hætta allri fiskvinnslu í Reykjavík og flytja hana upp á Akranes þar sem nýtt fiskiðjuver verður reist.

Forsvarsmenn HB Granda ákváðu að grípa til þessara aðgerða í kjölfar þess að ákveðið var að skera niður þorskafla á næsta fiskveiðiári um 30 prósent. Að sögn Eggerts B. Guðmundssonar, forstjóra HB Granda, mun þorskvóti félagsins dragast svo mjög saman á næsta ári vegna ákvörðunar sjávarútvegsráðherra að bein sókn í þorsk verði ómöguleg.

Minnkar kvótinn úr 7800 tonnum í 5200 tonn og verður þorskur því einungis veiddur sem meðafli annara tegunda eins og ýsu, ufsa, karfa og grálúðu. Eina þorskveiðiskip félagsins, ísfisktogarinn Sturlaugur H. Böðvarsson, mun því snúa sér að ufsa- og karfaveiðum.

Að sögn Eggerts kemur þessi niðurskurðu á þorskafla mikið við fyrirtækið. „Það að missa 2500 tonn af þorski þýðir að velta upp á fleiri hundruð milljónir tapast. Við verðum því að grípa til aðgerða því spilunum í stokknum okkar fækkar," segir Eggert.

Þessi ákvörðun þýðir að þorskvinnsla í landi skreppur verulega saman. Henni hefur hingað til verið sinnt í fiskiðjuveri HB Granda á Akranesi. Að sögn Eggerts verður sá þorskur sem veiðist sem meðafli áfram unninn þar auk þess sem hluti ufsaaflans verður unninn á Akranesi. Hann hefur hingað til allur verið unninn í Reykjavík ásamt karfa.

Til þess að haga landvinnslunni á sem hagkvæmastan hátt verður hún öll sameinuð í einu nýju fiskiðjuveri, sem áformað er að reisa á Akranesi. Stjórn HB Granda hefur óskað eftir því við stjórn Faxaflóahafna að gerð nýrrar landfyllingar og hafnargarðs á Akranesi verði flýtt svo félagið geti reist þar fiskvinnsluhús. Það á að vera tilbúið eftir um tvö ár ef allt gengur að óskum að sögn Eggerts.

Þetta þýðir jafnframt að fiskvinnsla í Reykjavík á vegum fyrirtækisins leggst af en HB Grandi á eitt stærsta fiskvinnsluhús höfuðborgarsvæðinsins úti á Granda. Aðspurður segir Eggert að ekki komi til fjöldauppsagna vegna þessa en að starfsfólki verði fækkað eitthvað á næstu tveimur árum á meðan breytingarnar standi yfir. Hjá fyrirtækinu starfa samtals 180 manns við fiskvinnslu, 60 á Akranesi og 120 í Reykjavík.

Óvíst er hvað verður um fiskiðjuver HB Granda við Grandagarð en Eggert segir að allt komi til greina, jafnvel að selja það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×