Innlent

Skoða myndir úr öryggismyndavélum til að finna skemmdarvarga

Málningu var slett á sendiráð Íslands við Norðurbryggju í Kaupmannahöfn í nótt og slagorð gegn áliðnaði á Íslandi skrifuð á bygginguna. Lögreglan í Kaupmannahöfn skoðar meðal annars myndir úr öryggismyndavélum í nágrenni sendiráðsins til þess að reyna að komast að því hver var þarna að verki.

Þegar starfsmenn sendiráðsins mættu til vinnu í morgun blöstu við þeim málningarslettur og veggjakrot við anddyrið. Þar hafði slagorðið „aluminumindustri ud af Island" verið krotað á bygginguna en útleggst á íslensku „Áliðnaðinn burt af Íslandi."

Lögregla kom í morgun og kannaði verksummerki og að sögn Bryndísar Kjartansdóttur, starfsmanns í sendiráðinu, vinnur hún nú að rannsókn málsins. Lögregla skoðar meðal annars myndir úr öryggismyndavélum í nágrenninu til þess að reyna komast að því hver eða hverjir voru þarna að verk. Aðspurð segir Bryndís að atvikið kalli ekki á að öryggisráðstafanir verði hertar við sendiráðið en í byggingunni eru einnig menningarmiðstöðin Nordatlantis Brygge og sendiskrifstofur Færeyja og Grænlands.

Sem fyrr segir liggur ekki fyrir hver stóð á bak við skemmdarverkin en þetta er í annað sinn í sumar sem málningu er skvett á sendiráð eða ræðismannskrifstofu Íslands. Seint í júlí skvettu félagar í samtökunum Saving Iceland málningu á ræðisskrifstofu Íslands í Edinborg ásamt því að festa slagorð á veggi hússins. Kona sem tengist Saving Iceland sem fréttastofa ræddi við í morgun vissi ekki til þess að einhver úr samtökunum hefði verið að verki í Kaupmannahöfn en félagar í samtökunum starfa í mörgum litlum hópum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×